Komið haust, já og þá er góður tími til að bæta þekkinguna og að þessu sinni er úr nógu að velja fyrir tæknifólk.
Rafmennt, sem sinnir námskeiðshaldi fyrir FTF og RSÍ, kynnir ný og fjölbreytt námskeið fyrir tæknifólk! Námskeiðin dreifast á önnina og eru ýmist stutt dagsnámskeið til nokkurra daga námskeið og miða að því að mæta vaxandi þörf fyrir sérhæfða hæfni á sviðum eins og tímabundin burðarvirki(rigging), hljóðlausnum og lýsingu. Félagið hvetur félagsfólk til að kynna sér frábært framboð á námskeiðum í haust, því úr nógu er að velja og niðurgreiðslan á námskeiðsgjaldinu er umtalsverð eins og sjá má þá er almennt verð t.d. fyrir Pro Tools 38.000 kr. en fyrir félagsfólk aðeins 13.300 kr..
Tæknifólkið er ómetanlega fólkið á bakvið tjöldin en án þeirra væru engir tónleikar, fréttir eða leiksýningar svo dæmi séu nefnd. Það er vöntun á tæknifólki á Íslandi þar sem það eru alltaf viðburðir í gangi, allan ársins hring. Ráðstefnur, tónleikar, árshátíðir, leiksýningar, hátíðar, kvikmyndaiðnaðurinn og fjölmiðlar. Námskeiðin sem standa til boða hjá Rafmennt í haust stuðla ekki bara að öflugra viðburðahaldi heldur einnig að betri vinnuaðstæðum fyrir alla sem koma að þessum mikilvægu störfum.
„Markmiðið hjá Rafmennt er að efla raf- og tækniiðnaðinn með góðum og vönduðum námskeiðum og hvetjum við alla að kynna sér möguleikana í boði.“ sagði Ingi Bekk verkefnastjóri miðlunar, tækni og skapandi greina hjá Rafmennt. „Einnig eru allar hugmyndir af nýjum námskeiðum vel þegnar og hægt er að senda ábendingar í gegnum vefsíðu Rafmenntar.“