Viðtal við Svein Kjartansson, framkvæmdastjóra Sýrlands, einn af aðalbakhjörlum Bransadagsins 2025

„Við erum í grunninn hljóðfyrirtæki en færðum okkur yfir í mynd líka. Við erum með talsetningar, músíkupptökur og kennum bæði hljóðtækni í Tækniskólanum og kvikmyndatækni fyrir Rafmennt,“ segir Sveinn Kjartansson, framkvæmdastjóri og stærsti eigandi Sýrlands. Fyrirtækið sérhæfir sig meðal annars í hljóð, mynd og graffíkvinnslu.

Sýrland er einnig með tækjaleigu fyrir kvikmyndagerð en til sýnis á Bransadeginum var fyrirtækið með fullbúinn útsendingarbíl, Arricam filmumyndavél sem enn er í notkun og kvikmyndaljósabúnað. „Þessi búnaður tilheyrir tækjaleigunni sem við erum með,“ segir Sveinn og bætir við að þáttaröðin Succession hafi verið tekin upp á filmuvélina. Einnig sé nýbúið að taka upp heila íslenska kvikmynd á vélina. Þessi tækni hefur því staðist tímans tönn.

Sveinn viðurkennir að honum hafi ekki listist á blikuna þegar hann heyrði af hugmyndinni um Bransadaginn. Hann hafi verið mjög efins  allt þar til hann mætti sem gestur í fyrra. Eftir það hafi hann ákveðið að vera með að þessu sinni. „Mér fannst þetta satt að segja ekkert alltof sniðug hugmynd – jafnvel svolítið asnalegt. En svo sá ég hvað þetta var flott. Það kemur mér alltaf á óvart hversu margir vinna í þessum geira, jafnvel þó við hjá Sýrlandi séum að kenna og ættum að vita það. Þessi bransi hefur verið að stækka mjög mikið. Við erum miklu stærri bransi en fólk heldur. Að koma hér í dag er eins og að koma á stórt ættarmót. Þetta er mjög skemmtilegt.“

Aðspurður segir Sveinn að lykillinn að því að hasla sér völl og vaxa sem fyrirtæki í þessum bransa sé að kunna allt. „Við erum á Íslandi – það eina sem gengur hér er að gera allt. Maður þarf að búa yfir mikilli fjölhæfni,“ segir hann að lokum.

Hér má sjá umfjöllun um Bransadaginn 2025