Viktor Atli Gunnarsson og Róbert Högni Þorbjörnsson stóðu vaktina fyrir Exton á Bransadeginum sem haldinn var í Hörpu á dögunum. Exton var einn af fjórum megin bakhjörlum Bransadagsins.

„Exton er með ljós, hljóð og mynd – og allt sem því tengist,“ segir Viktor Atli í samtali við Félag tæknifólks. „Við erum með allt frá lýsingu yfir til skjávarpa og hljóðvistarlausna. Við komum að tónleikahaldi, árshátíðum og í raun öllum viðburðum þar sem þarf á tækni að halda.“

Þeir félagarnir segja að hjá Exton starfi á bilinu 20-30 manns í föstum störfum en að fyrirtækið nýti sér verkefnaráðningar í nokkrum mæli.

Exton var líka með á Bransadeginum í fyrra. „Þetta er bara virkilega gott tækifæri til að hitta annað fólk í bransanum; fólk sem annars væri að vinna hvert í sínu horni. Í þessum bransa er fólk oft að vinna á móti hvort öðru, jafnvel í sömu verkefnum. Þannig að hér hafa allir unnið með öllum,“ segir Róbert Högni. Hann segir aðspurður að þrátt fyrir að fyrirtækin á Bransadeginum séus stundum að bítast um sömu verkefnin sé nóg að gera. „Og í þessum bransa eru allir vinir,“ segir hann.

Exton sýndi ýmsar vörur á Bransadeginum en fyrirtækið er umboðsaðili fyrir Allen & Heath og fjölmörg fleiri þekkt vörumerki. Exton var á Bransadeginum með sýnishorn af stúdíóhátölurunum, ljósum og ljósaborðum svo eitthvað sé nefnt. „Við erum umboðsaðilar fyrir allt sem við erum að sýna hérna,“ segir Viktor Atli en eins og myndirnar bera með sér var básinn hinn glæsilegasti.