„Þrátt fyrir að fyrirtækið sé aðeins fimm ára gamalt býr í því mikil reynsla. Við erum fimm saman í þessu og búum samanlagt að yfir 100 ára reynslu. Reynslan er úr sjónvarpi, leikhúsum, frá viðburðahaldi og öllu mögulegu sem tengist þessum bransa. Við teljum okkur vera leiðandi í þekkingu á þeim kerfum sem við erum að bjóða,“ segir Kristján Magnússon, einn stofnanda tæknifyrirtækisins Atendi. Kristján er verkefnastjóri hjá fyrirtækinu og sérfræðingur í ákveðnum kerfum sem það notar.

„Við skiptum þessu á milli okkar. Mín sérþekking liggur í sjónvarpskerfum og stjórnbúnaði fyrir þessa aðila sem við erum að vinna fyrir; búnað fyrir leikhúsin, fundarkerfi og sjónvarp, svo dæmi séu tekin.“ Atendi var með veglegan bás á Bransadeginum en fyrirtækið var einn af aðalbakhjörlum dagsins að þessu sinni. Kristján áréttar að fyrirtækið hafi komið að ótal stórum verkefnum á Íslandi síðustu 30 árin.

Á nýliðnu ári hefur Atendi til dæmis skilað af sér hljóðkerfi í menningarhúsið Hof á Akureyri, sett upp og gengið frá fundarkerfum fyrir nýtt skrifstofuhúsnæði Alþingis og séð um uppsetningu á fullkomnu hljóðkerfi og stigatöflu í Stapaskóla. „Þetta eru mjög fjölbreytt verkefni sem við tökum að okkur,“ segir Kristján.

Kristján segir að Bransadagurinn komi fyrirtækinu vel því þar sé auðvelt að ná til margra á stuttum tíma. „Hér er fólk sem við hittum kannski ekki nema tilfallandi yfir árið. Þetta gerir töluvert fyrir okkur og skapar bein tengsl. Við hittum líka gamla kunningja úr öðrum fyrirtæki. Við höfum verið lengi í þessum bransa – þó fyrirtækið sé ekki gamalt – en það er alltaf mikilvægt að halda áfram að kynnast fólki. Það er okkur líka mikilvægt að sem flestir viti af okkur.“

Sjálfur byrjaði Kristján í tæknigeiranum 1989, þá hjá Ólafi heitnum Laufdal veitingamanni á Hótel Íslandi. „Ég var ráðinn þangað sem eltiljósamaður. Árið 1992 stofnaði ég svo fyrirtæki, ásamt öðrum, sem varð svo að Exton um aldamótin. Við Gunnar Gunnarsson slitum okkur þaðan út 2020 og stofnuðum Atendi,“ útskýrir hann að lokum.