„Um leið og þessi hugmynd kviknaði þá sögðum við þeim að við værum til. Á Íslandi hefur hingað til ekki verið neinn vettvangur eða sýning sem tekur á þessum iðnaði,“ segir Karl Sigurðsson, framkvæmdastjóri Luxor. Fyrirtækið var einn af aðalbakhjörlum Bransadagsins, sem fram fór í Hörpu í annað sinn í upphafi árs. Félag tæknifólks nýtti tækifærið og ræddi við Karl um fyrirtækið.
Luxor er þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í viðburðum af öllum stærðum og gerðum auk þess að selja vörur frá merkjum í fremstu röð. Karl segir að fyrirtækið vinni með mynd, ljós, hljóð og sviðsbúnað. „Við erum alla daga að fást annars vegar við leiguverkefni eins og að þjónusta ljós og hljóð í verkefnum fyrir Stöð 2, RÚV, árshátíðir fyrirtækja og þess háttar. Önnur deild hjá okkur er svo að selja tækjabúnað, til dæmis hingað í Hörpu, í leikhúsin, í íshella eða kirkjur,“ segir Karl.
Fengu erlenda gesti
Fulltrúar nokkurra af helstu vörumerkjum sem Luxor selur voru mættir á Bransadaginn til að hitta og ræða við notendur. „Hér á básnum erum við með nokkra gesti. Við erum hér með menn frá Riedel communication, sem er bæði með intercom og myndlausnir. Sjónvarp Símans keyrir til að mynd alla mynddreifingu fyrir enska boltann í mynddreifikerfi frá Riedel auk þess sem Ridel intercom er á mjög mörgum stöðum á Íslandi. Hér erum við líka með fulltrá frá Robe, sem er einn stærsti hreyfijósaframleiðandi í heimi og frá AV LIGHT sem er öflugur ljósaborðaframleiðandi. D&B audio, sem framleiðir hljóðkerfi er líka hérna með okkur, sem og DiGiCo, sem framleiða hljóðmixera. Hér er bransinn saman kominn og okkur finnst mikilvægt og skemmtilegt að fá fulltrúa okkar helstu vörumerkja til að leyfa notendunum að spjalla við þá og fá kynningu á því hvað er nýtt og spennandi. Kúnnahópurinn þeirra er hérna í dag. Hér eru margir sem nota vörurnar frá þeim frá degi til dags og hafa á þeim skoðanir,” segir Karl.
Eins og áður segir þurftu aðstandendur Luxor ekki að hugsa sig tvisvar um þegar hugmyndin um Bransadaginn kom upp. „Þessi bransi er þannig að það er hver og einn að vinna í sinni holu. Við vitum mörg hvert af öðru en hittumst kannski lítið. Það er gaman að fá vettvang til að hittast, kynnast betur og tala saman,“ segir Karl sem spáir því að þessi dagur muni halda áfram að stækka.
Reiða sig mikið á verktaka
Luxor er með 16 fasta starfsmenn að sögn Karls en reiða sig mikið á verktaka og sjálfstætt starfandi tæknimenn. „Á stórum laugardegi erum við kannski með 120 manns í vinnu á okkar vegum. Það er algengt að stór verkefni raðist upp á sama kvöldið. Við erum mjög háðir því að þekkja vel til í bransanum og að bransinn þekki okkur. Þess vegna er Bransadagurinn mikilvægur fyrir okkur.“
Karl er einn af eigendum fyrirtækisins, einn af mörgum. Hann segist hafa byrjað í bransanum 2007, þegar hann lýsti drag-kvöld í MS – vegna þess að enginn annar fékkst til þess. „Ég kunni það ekki heldur en gerði það bara. Það var þarna strákur sem var að vinna í Þjóðleikhúsinu og spurði mig í kjölfarið hvort ég væri til í að koma sem eltiljósamaður í Þjóðleikhúsið. Ég mætti á eina prufuvakt og sogaðist bara inn í þetta. Og ég er enn í þessum bransa. Þetta gerðist bara óvart,“ segir hann að lokum.