Fimmtudaginn 27. febrúar koma þingfulltrúar sambandsþings Rafiðnaðarsambandins saman á aukaþingi.  Verkefni þingsins er kjör á nýjum formanni RSÍ, þar sem Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður RSÍ til 14 ára hefur sagt af sér formennsku í sambandinu.  Félag tæknifólks þakkar Kristjáni samstarfið í gegnum tíðina og óskar honum gæfu og gengis á vettvangi stjórnmálanna.

Jakob Tryggvason formaður Félags tæknifólks hefur gefið kost á sér til formennsku í RSÍ. Þetta hefur hann tilkynnt miðstjórn eftir samtöl við fjölmargt félagsfólk innan RSÍ og umræðu í stjórn Félags tæknifólks, sem styður framboðið heilshugar.

Undanfarin ár hafa verið viðburðarík og annasöm í starfi RSÍ, hjá Fagfélögunum á Stórhöfða og hjá Félagi tæknifólks.  Kjaraviðræður hafa verið nánast samfellt verkefni, uppbygging á sameiginlegum starfsvettvangi stéttarfélaganna að Stórhöfða undir merkjum Fagfélaganna og sameiningar stéttarfélaga. Jakob hefur starfað sem formaður Félags tæknifólks og sem gjaldkeri RSÍ á þeim tíma og hann hefur einnig setið í nefndum og starfshópum fyrir RSÍ á vettvangi lífeyrismála, menntamála, laga- og regluumhverfis RSÍ og í erlendum samskiptum sambandsins í störfum sínum á þessum vettvangi. Verkefni RSÍ og nýs formanns eru ærin og mikilvægt að stuðlað sé að góðri sátt og samfellu í daglegum störfum sambandsins og Fagfélaganna.

Að sögn Jakobs: „telur hann mikilvægt að aukaþing RSÍ veiti næsta formanni RSÍ skýrt umboð til góðra verka.  Það er því mjög mikilvægt að þingfulltrúar geti tekið afstöðu til þess hverjum verður afhent sú ábyrgð og niðurstaðan fáist með kosningu.  Því fagna ég því að við erum nú tvö sem höfum gefið kost á okkur til formanns.  Það verður spennandi að sjá hver niðurstaða þingsins verður.“