Ársskýrsla Félags tæknifólks 2021-2022
Félag tæknifólks gaf sér þrjú ár til að smíða eitt sameiginlegt félag með skýra stefnu og hlutverk. Lokatakmarkið er að félagsmenn allir líti fyrst og fremst á sig sem félaga í Félagi tæknifólks en ekki sem félagsfólk sem áður var í einu af þeim þremur stéttarfélögum sem sameinuðust árið 2020. Margt hefur áunnist en enn á félagið nokkuð í land til að þessu takmarki sé náð.
Skýrsla stjórnar FTF á seinasta ári má mætti mögulega draga saman á þann veg að þar hafi verið lýst góðu upphafi. Stjórn félagsins setti mjög mörg verkefni af stað, fór í kynningarátakið „Ómissandi fólk“ og setti sér það markmið að gera breytingar á því hvernig tekið er á móti nýjum félögum í okkar raðir og fókus settur á að hafa áhrif á grunnréttindi þeirra félaga okkar sem starfa innan verkefnadrifna hagkerfisins (E: Gig economy).
Ég vitna hér í inngang skýrslu stjórnar 2021
„Þetta er miklu meira en breyting að forminu til því þarna gáfum við, næststærsta félagið innan Rafiðnaðarsambandsins, í raun út yfirlýsingu um samstöðu og sameiginlega fag- og stéttarvitund, brugðumst við breytingum á vinnumarkaði og náðum saman undir faglegri regnhlíf mismunandi hópum sem eiga mun fleira sameiginlegt í baráttu fyrir bættum kjörum og réttindum en sýnist fljótt á litið.“
Ef fyrra ári má lýsa sem góðu upphafi í spennandi sögu þá mætti mögulega horfa á nýliðið starfsár sem miðbik sömu sögu. Nánast öll verkefni sem sett hafa verið í gang eru í vinnslu, mikill gangur í sumu, grunnvinna enn í gangi í öðru en og sum verkefni hafa í raun stækkað umfram væntingar. Má þar sem dæmi nefna vinna stjórnar félagsins sem miðar að því að styrkja öryggisnet verkefnadrifna hagkerfisins og fókus okkar á öryggismál skapandi greina.
Félagið hélt áfram að styðja við félagsmenn í heimsfaraldri, Upplýsingasíða félagsins vegna COVID, grímugjafir, aðstoð við félagsmenn sem lentu milli skips og bryggju í þeim úrræðum sem stjórnvöld buðu uppá vegna atvinnumissis og fleiri mál hafa tekið töluverðan tíma en eftir því sem leið á starfsárið hefur jafnt og þétt dregið úr þörf fyrir þessa þjónustu og er nú að mestu lokið.
Óformleg samantekt á verkefnum stjórnar FTF á Covidtímum:
- Um 1500 merktar sóttvarnagrímur gefnar
- Á milli 20 til 40 félagsmenn fengu beina aðstoð frá stjórn og starfsfólki við úrlausn mála tengdum Covid
- Enn stærri hópur fékk aðstoð í gegnum skrifstofu RSÍ
- Upplýsingasíða FTF um Covid úrræði var mjög mikið notuð á meðan úrræði eins og lokunarstyrkir, hlutabætur o.fl. voru að komast á koppinn. Smátt og smátt dró úr notkun síðunnar eftir því sem leið á faraldurinn.
- Í gegnum ASÍ og með samstarfi við önnur stéttarfélög í skapandi greinum, iðngreinum og ferðaþjónustu var töluvert starf unnið til að hafa áhrif á ýmis úrræði og regluverk svo þau nýttust okkar félagsmönnum eins vel og möguleiki var.
- Fylgst var með fjölda atvinnulausra og þeim boðin aðstoð og viðbótarúrræði í gegnum skrifstofu RSÍ og endurmenntun hjá Rafmennt fræðslusetri.
Auglýsing og annað efni fyrir kynningarátakið „Ómissandi fólk“ var unnið í lok árs 2020 en þar sem auglýsingar fóru ekki í dreifingu fyrr en í apríl 2021 þá er töluverður hluti þessa verkefnis einnig hluti af starfsemi félagsins á nýloknu starfsári. Eftirfarandi er útdráttur úr samantekt á verkefninu fyrir ári síðan
Landsmenn komust ekki hjá að verða varir við kynningarátakið Ómissandi fólk. Það hófst reyndar með blaðagreinum formanns og í framhaldinu voru gerðar auglýsingar þar sem mikið var lagt undir og margir lögðu hönd á plóg fyrir lítið eða jafnvel ekki neitt. Fyrirtæki og fagfólk í okkar röðum brást vel við kalli og á miklar þakkir skildar.
- Jónas Sig og Ritvélar framtíðarinnar lögðu á sig mikla vinnu og veittu okkur leyfi til að nota hugverk sín fyrir gjald sem gerði ekki meira en að greiða fyrir tímann sem liðið var á vettvangi við upptökur.
- Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús lánaði okkur húsnæði.
- RÚV lánaði tæki, útsendingarbíl og mannskap.
- Exton og KUKL lánuðu mikið af búnaði og fleiri fyrirtæki lögðu okkur lið.
101 Productions framleiddu kynningarefnið en Sahara hélt utan um dreifingu á Facebook, Instagram, YouTube og Google Ads og beindi markaðsefninu að skilgreindum markhópum. Um 86.000 manns sáu skilaboðin í þessum miðlum og heildarbirtingar voru yfir 700.000 talsins.
Niðurstaða Sahara:
„Lykilmælikvarðar herferðar koma mjög vel út samanborið við það sem við þekkjum.“
Nýlokið starfsár hefur einkennst af áframhaldandi málefna og stefnuvinnu félagsins sem undanfara formlegrar stefnumótunarvinnu sem eru á staráætlun þess starfsárs sem er að hefjast. Þó verkefnin séu mun fleiri en hægt væri að rekja hér þá eru hér fyrir neðan rakin meiginþemu þessarar vinnu
- Gakktu í bæinn. Við bjóðum þá velkomna í hópinn sem nýlega hafa í hann bæst og stuðlum að því að þeim sem fyrir eru líði áfram eins og heima hjá sér í félagsskapnum! Kynnum það sem félagsmönnum stendur til boða í félaginu og með RSÍ sem bakhjarl. Réttindamál, málefni lífeyrissjóða, lagaskyldur um persónuvernd og fleira og fleira. Viðfangsefnin og umræðuefnin eru óþrjótandi. Vinna seinasta árs sem þá var að mestu eingöngu á borði félagsins sjálfs hefur verið að færast yfir á sameiginlegt borð RSÍ og fagfélaganna á Stórhöfða. Þó að eðlilega sé þá ekki hlaupið eins hratt þá er þetta verðmæt þróun þar sem styrkur fellst í stærðinni í þessu eins og mörgu öðru.
- Störf á síbreytilegum vinnumarkaði, ótraust ráðningarsamband. Eðli máls samkvæmt er þetta viðfangsefni okkar í umtalsverðum mæli enda höfum við innan vébanda félagsins fjölda einyrkja sem búa við lítt skilgreint ráðningarsamband og enn stærri hópur fólks sem vinnur á mjög litlum vinnustöðum eða í mörgum hlutastörfum og þannig um margt jafn illa varinn hópur fólks og einyrkinn. Mikil áhersla hefur verið á rýni á grunnforsendur velferðarkerfisins og þróun þessara mála innan Evrópu. Mjög margt verið gert en þegar eitt félag einsetur sér að hafa áhrif á „kerfið“ þá er það ljóst að um langtímaverkefni er að ræða. Engu að síður hefur þegar náðst árangur og vitundarvakning er hafin.
- Menntun og hæfni. Verkefnið Mannauður er auðlind – greining starfa, hæfni, menntunar- og mannauðsþarfa í skapandi iðnaði og skapandi greinum hefur haldið áfram í undirbúningi á árinu. Sýn á verkefnið hefur þroskast töluvert og ber verkefnalýsing þess merki. Verkefnið hefur fengið vilyrði fyrir fullri fjármögnun frá Menntasjóði rafiðnaðarins. Þetta er langtímaverkefni sem ætla má að taki 5-7 ár að þroskast til fulls en fer að skila tilætluðum árangri strax á fyrsta ári. Í verkefna lýsingu segir meðal annars:
„taka saman og greina aðgengilegar upplýsingar til að skapa heildstæða yfirsýn og fjölbreytileika þeirra starfa sem teljast til tækni- og hugverka og í dag eru að mörgu leyti falin innan mismunandi starfsgreina. Slíkar upplýsingar munu gagnast við mótun náms og raunfærnimats en ekki síður við mat á mannaflaþörf og skilgreiningu viðkomandi starfa í ÍSAT 2008 og ÍSTARF95 flokkunarkerfi Hagstofunnar sem nauðsynlegt er til að fylgjast með þróun þessa hóps á vinnumarkaði.“
Seinasti áfangi í undirbúningi þessa verkefnis, áður en formlega er hægt að hleypa því af stokkunum er nú yfirstandandi. Nánari skilgreining á þíði verkefnisins, þ.e. til hvaða starfsgreina á verkefnið að ná til nákvæmlega, er í skoðun og viðræður í gangi um hvernig við búum til sterkt bakland fyrir verkefnið, samsett bæði af fulltrúum launafólks og atvinnurekenda til að tryggja sem best framgang verkefnisins og að afurðir þess nýtist strax greinunum til hagsbóta.
- Öryggismál. Öryggisverkefni félagsins og Rafmenntar fræðslusetur er í fullum gangi. Fyrsta fasa verkefnisins er að mestu lokið þar sem bakland er skilgreint, hæfnirammi fyrir námsframboð hefur verið útbúinn og samstarf við Háskólann á Bifröst og Háskólann á Hólum hefur verið komið á. Næsti fasi hefur aðeins liðið fyrir heimfaraldurinn þar sem samkomutakmarkanir og óstöðugleiki í greinunum hefur valdið því að dregist hefur að skipa faghópa sem ætlað er að vinna að efni og ferlum vegna náms og vottunar á sérhæfðum sviðum öryggismála en það er mat fólks að hægt verði að vinna upp þann tíma sem tapast hefur á því starfári sem er að hefjast.
Verkefninu er ætlað að búa til námsefni og skipuleggja hæfnisvottun þeirra sem bera ábyrgð á öryggismálum á sýningum, tónleikum, sviðsviðburðum, kvikmyndum og á fleiri stöðum innan skapandi iðnaðar og skapandi greina og yfirleitt á vettvangi þar sem tæknibúnaður, tæki og tól gnæfa á sviði eða hanga í lofti yfir listamönnum og áhorfendum. Uppsetning búnaðarins krefst sérhæfingar sem vissulega er fyrir hendi hjá mörgum en við viljum gera þetta að fagsviði með tilheyrandi menntun, vottun og eftirliti. Þetta er ekki hvað síst brýnt nú þegar við blasir að margir sérhæfðir „reynsluboltar“ á þessu sviði hurfu til annarra starfa á COVID-tímanum og hafa ekki skilað sér til baka.
Okkur heldur áfram að fjölga. Félagsmenn eru nú að skila um 1600 ársverkum og þó ekki séu komnir nema tveir mánuðir af árinu 2022 inn í samanburðartöflur þær sem fylgja þessari ársskýrslu þá lofa þær tölur góðu um framhaldið.
Engu að síður sáum við töluvert flot á fólki þar sem fólk færðist frá okkur til annarra starfa, fækkun varð einnig um mitt sumar 2021 þegar áhrif þess að hlutabótaleið Atvinnuleysissjóðs var felld niður mælist í félagaskrá okkar og fimmta bylgja heimsfaraldurs hefur að öllum líkum haft hamlandi áhrif á vöxt nýrra starfa í okkar greinum. Þrátt fyrir þetta erum við samt að sjá fjölgun félagsmanna.
Hluti komandi stefnumótunarvinnu verður rýni á nafn og ásýnd félagsins. Sumir eiga erfiðara en aðrir að tengja við nafnið Félag tæknifólks en þangað til er gott að hafa í huga hvernig við túlkum hugtakið „tækni“ í heiti félagsins. Við miðum ekki eingöngu við þekkingu á að brúka einhver tæki og tól. Orðið tækni er nefnilega skilgreint í íslenskum fræðum sem „æfð, skipuleg starfsaðferð sem nauðsynlegt er að menn noti í starfi sínu, til dæmis í framleiðslu, íþróttum, listum og víðar“, það er að segja verkkunnátta, reynsla og þekking með eða án verkfæra og véla.
Við skulum því hugsa um tæknina í heiti félagsins í víðri merkingu og þar með undirstrikast það sem fyrr er sagt að í Félagi tæknifólks er hátt til lofts og vítt til veggja.
Sem hluti af stefnu- og málefnavinnu seinasta árs boðaði Félag tæknifólks til vinnustofu um einyrkja í verkefnadrifnu hagkerfi. Niðurstaða þeirrar vinnu voru 6 atriði sem stjórn hefur haldið áfram að vinna með og munu síðar verða hluti af því efni sem rýnt verður í komandi stefnumótunarvinnu
Hér fyrir neðan eru áhersluatriðin sex og nokkur orð um stöðu verkefna þeim tengd:
- Skýr grunnur að kjara og launaviðmiðum. Langtímaverkefni eins og lýst hefur verið á öðrum stað í þessari skýrslu. Engu að síður vinnur stjórn félagins að því að skref verði tekin í komandi kjaraviðræðum og beitir sér af afli fyrir vitundarvakningu allra hagaðila.
- Reiknivél sem tryggir að réttar greiðslur af sölureikningum fari á rétta staði. Fyrsta reiknivél FTF langt komin í forritun og vonir standa til að ekki sé langt að bíða þar til hægt verður að kynna hana fyrir félögum innan FTF.
- Félagsleg réttindi einyrkja séu tryggð til jafns við launafólk. Langtímaverkefni, unnið samhliða áherslum í punkti 1. Formaður félagsins átt viðræður við ráðherra, Vinnueftirlit, SA o.fl. Fer einnig fyrir nefnd um ótraust ráðningarsambönd á vegum ASÍ og hef átt viðræður við önnur fag- og stéttarfélög sem hafa svipaða hagsmuni.
- Efla öryggisvitund milli verktaka / félagsmanna og verkkaupa. Áðurnefnt öryggisverkefni félagsins, Rafmenntar fræðsluseturs, Háskólans á Hólum og Háskólans að Bifröst er ætlað að skýra línur, votta hæfni og taka á kynningarmálum svo bregðast megi við þessu áhersluatriði.
- Mikilvægur þáttur í stefnu FTF er að auka gæði og stöðlun í starfs og verksamningum og veita aðgengi að sérfræðiaðstoð við gerð þeirra. Verk í vinnslu í samstarfi við lögfræðinga, RSÍ og Hús fagfélaganna.
- Sniðmát að verksamningum komi frá stéttarfélaginu. Töluvert verið rýnt og dæmum um verksamninga verið safnað saman. Drög verið lögð að næsta fasa þar sem lögfræðingur sem er sérhæfður í vinnumarkaðnum vinnur álit og leiðbeiningar og ráðgert að upp úr þessu verði unnið rafrænt fræðsluefni eða verkfæri sem styður við gerð verksamninga
Nefndir innan RSÍ |
Stjórn og nefndir ASÍ |
Seta í stjórnum og ráðum |
---|---|---|
Framkvæmdastjórn RSÍ Gjaldkeri: Jakob Tryggvason, FTF Aðalmenn miðstjórnar RSÍ Elma Bjarney Guðmundsdóttir, FTF Hafliði Sívertsen, FTF Ragnar G. Gunnarsson, FTF Sigurjón Ólason, FTF Elma Bjarney Guðmundsdóttir FTF Varamenn Anna Sigríður Melsteð, FTF Páll S. Guðmundsson, FTF Hafþór Ólafsson, FTF Sambandsstjórn Aðalmenn Móeiður Helgadóttir, FTF Elva Sara Ingvarsdóttir , FTF Róbert Steingrímsson, FTF Sigurður Ingi Kjartansson, FTF Einar Ágúst Kristinsson, FTF Varamenn Björn Helgason, FTF Jón Eiríkur Jóhansson, FTF Ólafur Ragnar Halldórsson, FTF Jóhannes Tryggvason, FTF Andri Guðmundsson, FTF Starfsnefndir miðstjórnar Afmælisnefnd vegna 50 ára afmælis RSÍ 2020 Elma Bjarney Guðmundsdóttir Fjölskylduhátíðarnefnd RSÍ Hafliði Sívertsen Jakob Tryggvason Jafnréttisnefnd RSÍ Anna Sigríður Melsteð, Elma Bjarney Guðmundsdóttir. Launanefnd RSÍ Jakob Tryggvason Laga- og skipulagsnefnd RSÍ Jakob Tryggvason Lífeyrisnefnd RSÍ Jakob Tryggvason Menntanefnd RSÍ Ragnar G. Gunnarsson Orlofsnefnd RSÍ Hafliði Sívertsen. Skoðunarmenn RSÍ Anna Sigríður Melsteð |
Húsnæðisnefnd Aðalmaður: Hafliði Sívertsen Vinnumarkaðs, atvinnumála- og jafnréttisnefnd Aðalmaður: Anna Sigríður Melsteð Lífeyris-, heilbrigðis- og trygginganefnd Aðalmaður: Jakob Tryggvason Menntanefnd Varamaður: Elma Bjarney Guðmundsdóttir Fjölmiðla- og kynningarnefnd Varamaður: Sigurjón Ólason Ótrygg ráðningarsambönd Fulltrúi miðstjórnar: Jakob Tryggvaon, formaður nefndar Aðalmaður: Sigríður Rósa Varamaður: Elva Sara Ingvarsdóttir |
Menntasjóður rafiðnaðarins Jakob Tryggvason, formaður stjórnar Starfsgreinaráð rafiðnaðarins Varamaður: Ragnar G. Gunnarsson |