Hvað er einyrki/verktaki?

Atvinnurekandi er sá sem stundar sjálfstæða starfsemi með reglubundnum hætti að nokkru umfangi og í þeim tilgangi að hagnast. Taki hann að sér, gegn endurgjaldi, að vinna eða annast um tiltekið verk fyrir annan aðila, verkkaupa, og ábyrgist árangur verksins telst hann verktaki. Verktakar geta bæði verið félög og menn. Atvinnurekandi (verktaki) sem hefur fólk í vinnu (starfsmenn/launamenn) kallast einnig vinnuveitandi og ber tilteknar skyldur sem slíkur eins og nánar er rakið hér á eftir.

Einyrkjar/verktakar eru sjálfstætt starfandi atvinnurekendur en ekki launamenn. Einstaklingsfyrirtæki er fyrirtæki sem einstaklingur á og rekur á eigin kennitölu.

Einyrkjar/verktakar njóta hvorki réttar til launa frá verkkaupa, til dæmis í veikinda- og slysatilfellum, né mótframlags í lífeyrissjóði, slysatrygginga eða orlofsréttar.

Hvað er gerviverktaka?

Það er grundvallarmunur á sambandi starfsmanna og vinnuveitenda annars vegar og verktaka og verkkaupa hins vegar. Réttindi, skyldur og ábyrgð verktaka og starfsmanna eru mismunandi og skattaleg meðferð tekna er að mörgu leyti ólík.

Launafólk
Er ráðið til starfa hjá atvinnurekanda þar sem unnið er undir stjórn hans og á ábyrgð hans gegn greiðslu launa.

Verktaki
Tekur að sér að vinna ákveðið verk fyrir fyrirfram ákveðið verð fyrir verkkaupa. Verktaki vinnur á eigin ábyrgð.

Gerviverktaka

  • Er unnið fyrir einn eða fleiri?
  • Hver leggur til aðstöðu, verkfæri, efni?
  • Er viðkomandi skyldugur til að vinna verk af hendi persónulega?
  • Hver ábyrgist árangur verks?
  • Hver ber ábyrgð á tjóni?
  • Hver hefur stjórnunarréttinn þ.e. hvar, hvernig og hvenær unnið?
  • Miðast greiðsla við árangur verks eða miðast greiðsla við tímaeiningu?

Dómar um mun á verktaka launafólki:

Hrd. 58/2002

Hrd. 286/1998

Hrd. 255/1997

Nýr í rekstri – hver eru fyrstu skrefin?

Þeir sem eru að hefja atvinnurekstur verða, eftir atvikum, að skrá sig á eftirfarandi skrár hjá ríkisskattstjóra: Launagreiðendaskrá, virðisaukaskattskrá og eftir atvikum gistináttaskrá og fjármagnstekjuskattskrá. Sjá nánar hér.

Hjá skattyfirvöldum þurfa einstaklingar í atvinnurekstri og félög að skrá sig/starfsemina á launagreiðendaskrá eigi síðar en 8 dögum áður en starfsemi hefst. Þó þarf einstaklingur ekki að skrá sig á launagreiðendaskrá ef reiknað endurgjald hans fer ekki yfir 450.000 kr. miðað við heilt ár. Ef um virðisaukaskattsskylda starfsemi er að ræða þarf einnig að skrá starfsemina á virðisaukaskattsskrá eigi síðar en 8 dögum áður en starfsemi hefst.

Sé velta í starfseminni lægri en tiltekin fjárhæðamörk (2.000.000 kr. án VSK) á sérhverju tólf mánaða tímabili þurfa ekki að innheimta virðisaukaskatt og þar að leiðandi ekki að skrá sig og sækja um virðisaukaskattsnúmer.

Áður en starfsemi hefst þarf að tilkynna um hana á þar til gerðum eyðublöðum. Þeir sem stunda virðisaukaskattsskylda starfsemi þurfa að tilkynna um hana og þeir sem greiða laun eða reikna sér endurgjald þurfa að tilkynna um það.

 

Hver er munurinn á helstu félagaformum?

Einstaklingsrekstur er ódýrasta og einfaldasta rekstrarformið, rekið á kennitölu viðkomandi einstaklings og ber hann ábyrgð á rekstrinum með öllum eigum sínum. Ekkert skráningargjald. Ekkert lágmarks stofn fé. Tekjuskattshlutfall af eigin launum í einkarekstrinum og hagnaði er hið sama og af launatekjum einstaklinga.

Helstu félagaform sem til greina koma eru:

Einkahlutafélag – ehf. Helstu einkenni eru að það er a.m.k. einn stofnandi. Takmörkuð ábyrgð. Er alltaf sjálfstæður skattaðili. Hlutafé verður að vera a.m.k. kr. 500.000.

Hlutafélag – hf. Lágmark að hafa tvo stofnendur. Takmörkuð ábyrgð. Er alltaf sjálfstæður skattaðili. Hlutafé verður að vera a.m.k. kr. 4.000.000.

Samlagshlutafélag – slhf. Lágmark að hafa tvo stofnendur. A.m.k. einn aðili með takmarkaða ábyrgð og a.m.k. einn með ótakmarkaða ábyrgð. Getur verið annað hvort sjálfstæður eða ósjálfstæður skattaðili. Hlutafé verður að vera a.m.k. kr. 4.000.000. Ef um ósjálfstæðan skattaðila (félag) er að ræða skal skipta tekjum og eignum félagsins á eigendur þess í samræmi við eignahlutföll til skattlagningar hjá þeim.

Sameignarfélag – sf. Lágmark að hafa tvo stofnendur. Allir eigendur með ótakmarkaða ábyrgð – einn fyrir alla og allir fyrir einn. Getur verið annað hvort sjálfstæður eða ósjálfstæður skattaðili. Ekki er gerð krafa um stofnfé. Hjón ein sér eða með ófjárráða börnum sínum geta þó ekki myndað sameignarfélag sem er sjálfstæður skattaðili. Ef um ósjálfstæðan skattaðila (félag) er að ræða skal skipta tekjum og eignum félagsins á eigendur þess í samræmi við eignahlutföll til skattlagningar hjá þeim.

Samlagsfélag – slf. Lágmark að hafa tvo stofnendur. A.m.k. einn aðili með takmarkaða ábyrgð og a.m.k. einn með ótakmarkaða ábyrgð. Getur verið annað hvort sjálfstæður eða ósjálfstæður skattaðili. Ekki er gerð krafa um stofnfé. Hjón ein sér eða með ófjárráða börnum sínum geta þó ekki myndað samlagsfélag sem er sjálfstæður skattaðili. Ef um ósjálfstæðan skattaðila (félag) er að ræða skal skipta tekjum og eignum félagsins á eigendur þess í samræmi við eignahlutföll til skattlagningar hjá þeim.

 

Á einyrki rétt á atvinnuleysisbótum?

Einyrkjar verktakar eiga rétt á atvinnuleysisbótum eftir ákveðnum skilyrðum, sjá frekari upplýsingar á vef vinnumálastofnunar. Sjálfstætt starfandi einstaklingar geta átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta hafi rekstur verið stöðvaður (launagreiðandaskrá lokað hjá Skattinum) og staðið hafi verið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi.

Nánar á vef Vinnumálastofnunar.

 

Hvað gerist við gjaldþrot einyrkja/verktaka?

Verði verkkaupi gjaldþrota njóta kröfur einyrkja/verktaka um greiðslur fyrir vinnu sína ekki forgangs við skipti á þrotabúinu, samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti og eiga þar af leiðandi ekki rétt á greiðslum úr ábyrgðasjóði launa.

 

Hver er munurinn á verksamningum og ráðningarsamningum?

Verksamningur er gerður milli tveggja atvinnurekenda ólíkt ráðningarsamningum þar sem annar aðilinn skuldbindur sig til að vinna fyrir samningsaðila undir stjórn hans og á ábyrgð hans gegn greiðslu í peningum og / eða öðrum verðmætum. Efni og eðli samnings ræður því hvort um er að ræða verksamning eða ráðningasamning.

Erfitt er að gefa einhlít svör við spurningunni um það hvenær einstaklingur telst launamaður og hvenær verktaki. Fjölmörg atriði koma þar til álita, og öll atriði samnings aðila verður að skoða í heild. Þættir eins og afmörkun verks í tíma, afmörkun verks frá almennri starfsemi fyrirtækis, afstaða samningsaðila til samningsins, launatengd gjöld, aðstaða, verkfæri og efni, ábyrgð á verki, áhætta, samband aðila, félagsaðild, greiðslufyrirkomulag, forföll, orlof, persónulegt vinnuframlag, sjálfstæði, skattskil, verkstjórn og vinnutími skipta máli við mat á því hvers konar samning er um að ræða.

Hér má sjá þrjá úrskurði yfirskattanefndar þar sem tekin er afstaða til raunverulegra tilfella: nr. 43/2016, 223/2013 og 41/2012.

Hvað er reiknað endurgjald / reiknuð laun?

Maður sem starfar við eigin atvinnurekstur á að reikna sér endurgjald (laun) fyrir þá vinnu. Með þessi laun fer á sama hátt og almennar launagreiðslur til launþega, þ.e. reikna þarf af þeim staðgreiðslu opinberra gjalda, greiða tryggingagjald og iðgjald í lífeyrissjóð.

Reglan á bæði við um mann sem stundar atvinnustarfsemi í eigin nafni (eigin kennitölu) og mann sem starfar við atvinnurekstur eða starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum, eða við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.

Sjá nánar á vef Skattsins

Hvað er staðgreiðsla?

Einyrkjar/verktakar verða sjálfir að standa skil á ýmsum launatengdum og rekstrartengdum sköttum og gjöldum samkvæmt lögum. Þá er þeim sem stunda atvinnurekstur og öllum launþegum skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði frá 16 ára til 70 ára aldurs.

Meginreglan er sú að allar tekjur eru skattskyldar nema þær séu sérstaklega undanþegnar. Árið sem tekjurnar verða til nefnist tekjuár (rekstrarár verði tekjurnar til í atvinnurekstri). Á næsta ári eftir lok tekjuársins/rekstrarársins er árið gert upp, þ.e. skattframtali er skilað og ríkisskattstjóri leggur skatta á skattskyldar tekjur viðkomandi (álagning skatta). Það ár nefnist álagningarár.

Á tekjuárinu/rekstrarárinu er haldin eftir staðgreiðsla skatta af tilteknum tekjum, s.s. reiknuðum launum, launum starfsmanna, sem er í raun bráðabirgðagreiðsla upp í álagningu skatta. Því má segja að um sé að ræða fyrirframgreiðslu skatts áður en eiginleg álagning fer fram. Þannig halda launagreiðendur eftir staðgreiðslu skatta af launum starfsmanna sinna jafnóðum og þeir greiða út launin og standa skil á skattinum til ríkissjóðs. Þeir sem reikna sér laun vegna eigin starfsemi ber jafnframt almennt að standa skil á staðgreiðslu skatta vegna þeirra launa. Við álagningu skatta er tekið tillit til þess skatts sem haldið var eftir í staðgreiðslu. Þar sem staðgreiðslu er haldið eftir á tekjuárinu/rekstrarárinu er oft talað um staðgreiðsluár.

Hvað er frádráttarbært frá skatti?

Þegar skattstofn er reiknaður er heimilt að færa rekstrarkostnað til frádráttar rekstrartekjum. Til rekstrarkostnaðar teljast bein útgjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við. Það á einnig við um það sem varið er til tryggingar og viðhalds á eignum sem bera arð í rekstrinum.

Almennur kostnaður vegna heimilis og fjölskyldu og annarra persónulegra þarfa er ekki frádráttarbær. Tilfallandi afnot af persónulegum munum skapar almennt ekki heimild til gjaldfærslu í rekstri. Sem dæmi má nefna að almennt er ekki fallist á gjaldfærslu kostnaðar vegna fatakaupa, enda hafa menn yfirleitt full persónuleg afnot af þeim. Á því eru þó undantekningar, t.d. vegna nauðsynlegs öryggis- og hlífðarfatnaðar.

Í fjölmörgum úrskurðum yfirskattanefndar er tekið á ýmsum álitaefnum varðandi rekstrarkostnað, þ.e. hvaða kostnað heimilt er að gjaldfæra og hvaða kostnað er ekki heimilt að gjaldfæra.

Af úrskurðum nefndarinnar er unnt að lesa hvaða sjónarmið almennt eru lögð til grundvallar mati á því hvort gjaldfærsla kostnaðar er heimil.

Vefur yfirskattanefndar

 

Hvaða opinberu gjöldum þarf ég sem verktaki eða einyrki að greiða?

Þeir sem greiða laun til starfsmanna og reikna sér laun í rekstri (reiknað endurgjald) ber almennt að halda eftir og standa skil á staðgreiðslu tekjuskatts og tryggingagjalds. Launatímabil er að hámarki einn mánuður. Gjalddagi er 1. dagur næsta mánaðar á eftir launamánuði og eindagi 15. hvers mánaðar.

Einnig þarf að hafa í huga að af launum þarf að greiða í lífeyrissjóð og stéttarfélag.

Sjá nánar hér, undir liðnum staðgreiðsla tekjuskatts og tryggingagjald