Undirrituð alþjóðleg og svæðisbundin samtök sem eru fulltrúar sambanda kvikmyndaframleiðenda, stéttarfélaga, félaga og fagsambanda skapandi starfsgreina og tæknigreina í kvikmynda- og sjónvarpsiðnaði gera ákall til ríkisstjórna, alþjóðlegra og svæðisbundinna milliríkjastofnana og aðila sem hafa með fjárveitingar til menningarmála að gera, um að grípa til skjótra, hnitmiðaðra og samræmdra aðgerða til að styðja við fyrirtæki og allan starfskraft – fastráðið starfsfólk, lausráðið tímavinnufólk og sjálfstætt starfandi – til að bregðast við hinum lamandi efnahagslegu og félagslegu áhrifum þess neyðarástands sem heimsfaraldurinn COVID19 hefur skapað í okkar iðngrein. 

Neyðarástandið sem skapast hefur vegna COVID-19 hefur á augabragði stöðvað alla kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu um allan heim. Þúsundir fyrirtækja, flest lítil og meðalstór, hafa orðið fyrir áhrifum ástandsins og milljónir starfsfólks sem starfa beggja vegna myndavélarinnar hafa þegar misst eða eru í hættu að missa störf sín, annað hvort tímabundið eða, í verstu tilvikum, til frambúðar. Milljónir annarra starfa sem tengjast þeirri atvinnustarfsemi sem okkar geiri skapar hafa einnig orðið fyrir áhrifum.  

Samstaða innan vistkerfis framleiðslu fyrir hljóð- og myndmiðla og frá stefnumarkandi aðilum eru tvær grunnstoðir þess að viðhalda alþjóðlega kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinum mitt í þessu neyðarástandi. 

Við fögnum frumkvæði landssambanda, fyrirtækja og annarra aðila sem hafa komið á fót og/eða stutt við viðlagasjóði og viljum gera ákall annarra hagsmunaaðila í okkar grein um að gera hvað sem þarf til að styðja við alla þá sem orðið hafa fyrir barðinu á þessu neyðarástandi. Hins vegar getur greinin ein og sér ekki tekið á sig byrðar þessa fordæmalausa ástands.  

Til að standa af sér þetta mikilvæga tímabil, þarf kvikmynda- og sjónvarpsframleiðsla einnig á ríkisstjórnum að halda, alþjóðlegum og svæðisbundnum milliríkjastofnunum og aðilum sem hafa með fjárveitingar til menningarmála að gera, að veita nauðsynlegan stuðning með því að grípa til aukinna ráðstafana. Við vekjum athygli á því að nokkur lönd, svæðisyfirvöld og stofnanir ESB eru að grípa til ívilnunarráðstafana til að viðhalda efnahagi okkar og við gerum ákall til allra sem taka ákvarðanir að aðhafast skjótt á næstu dögum og vikum til að sníða þær einnig að brýnni þörf kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslugeirans. Þar á meðal eru áríðandi ráðstafanir með tilliti til ríkisstyrkja, skattlagningar og almannatrygginga.  

Brýn þörf er á auðveldum og tafarlausum aðgangi að sérstökum fjárhagsstuðningi til að standa straum af föstum kostnaði á komandi vikum og mánuðum. Þetta er eitt af helstu skilyrðunum sem þarf að bregðast við tafarlaust: að vernda fyrirtæki í hljóð- og myndmiðlageiranum, sem og starfsfólk og hæfileikafólk, eftir að COVID-19 hefur gengið um garð. 

Til að styðja við fyrirtæki og efnahagslega sjálfbærni geirans í heild sinni, mælum við einkum með að: 

 • Efnahagslegum ívilnunum og úrræðapökkum sé beint að og sniðin að sérstökum þörfum og verklagi hins verkefnamiðaða eðlis geirans og óreglulegum hagsveiflum hans. 
 • Tímabundnum og ótakmarkandi lagarömmum sem taka á ríkisstyrkjum sé tafarlaust komið á. Skattaumhverfi sé aðlagað meðan á neyðarástandinu stendur til að létta þrýstingi á fyrirtæki jafnt sem starfsfólk. 
 • Greiðslum á tryggingagjaldi vinnuveitenda sé frestað hvenær sem þess gerist þörf. 
 • Fjárveitingaraðilar og ríkisstjórnir styðji við vátryggingakröfur frá framleiðendum kvikmynda og sjónvarpsefnis vegna stöðvana á tökum, komi til tjóns vegna fylgni við öryggisráðstafanir vegna COVID-19. 
 • Fjárveitingaraðilar aðlagi reglur sínar þannig að þær veiti besta mögulega stuðninginn vegna stöðvaðra verkefna og gefi sveigjanleika með tilliti til verkefnaumsókna.  
 • Sérstökum sjóði sé komið á fót til að örva framleiðslu og dreifingu eftir að COVID-

19 hefur gengið um garð, þar á meðal með stuðningi kvikmyndasjóða og skattaafsláttum. Þörf er á verulegu átaki til að hlúa að getu framleiðslufyrirtækja til að þróa ný verkefni. 

 • Leyfi verði veitt fyrir beinum styrkjum til að hjálpa til við að mæta núverandi föstum kostnaði, þar á meðal launum, og tryggja á sama tíma að þeir séu til viðbótar við framleiðslu- og dreifingarstyrki frá fjárveitingaraðilum. Styrkir eru æskilegri en lán. Lánatryggingar hæfa ekki sérstöku umhverfi hljóð- og myndmiðlageirans: mörg framleiðslufyrirtæki geta ekki lagt fram tryggingar/veð að því marki sem krafist er fyrir lán þar sem hugverkaréttindi eru ekki gjaldgeng sem veð. 
 • Bætur vegna taps á fjármögnun vegna aðgöngumiða í kvikmyndahús séu leyfðar og þeim beint til fjárveitingaraðila. 

Fólkið beggja vegna myndavélanna eru hryggjarstykki iðngreinarinnar. Vegna sérstaks umhverfis hljóð- og myndmiðlageirans, er meirihluti leikaraliðs og starfsfólks annað hvort með skammtímasamninga eða fengið til starfa sem óháðir verktakar. Margir þessara njóta ekki nægilegra félagslegra bóta sem hægt er að leita í á meðan á þessu neyðarástandi stendur og geta því staðið frammi fyrir alvarlegum aðstæðum. Til að styðja við þetta starfsfólk meðan á neyðarástandinu stendur og efnahagslegum afleiðingum þess, og til að undirbúa greinina fyrir það sem kemur á eftir COVID-19 með því að tryggja að vinnuafl og þekking verði áfram á því stigi sem verið hefur, mælum við einkum með að: 

 • Efnahagslegar og félagslegar ívilnanir sem beint er að kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinum með það að markmiði að viðhalda atvinnu og þekkingu, nái til alls starfsfólks í okkar geira, þar á meðal verktaka og sjálfstætt starfandi. 
 • Hlýðni starfsfólks við fyrirmæli um að halda sig heima komi ekki niður á áunnum orlofsréttindum þess. 
 • Skammtíma vinnuráðstafanir séu sniðnar að þessu fordæmalausa neyðarástandi með það að augnamiði að halda eins mörgum þeirra sem starfa við kvikmyndir og sjónvarp í vinnu og mögulegt er og viðhalda tekjum þeirra meðan á ástandinu stendur.   
 • Aðgangur að félagslegum bótum og veikindalaunum sé tryggður án takmarkana eða biðtíma fyrir allt starfsfólk og viðmið fyrir gjaldgengi séu lækkuð eða á annan hátt aðlöguð. Tímabundinn atvinnumissir vegna innilokunar komi ekki niður á aðgangi að slíkum bótum. 
 • Réttur til atvinnuleysisbóta sé framlengdur þannig að hann standist lengd og langvarandi áhrif neyðarástandsins og biðtími endurskoðaður svo hann nái yfir allan þann tíma sem fólk hefur verið óvirkt vegna hlýðni við fyrirmæli um að halda sig heima. 
 • Sjóðum fyrir verktaka og sjálfstætt starfandi starfsfólk sé komið á fót af opinberum yfirvöldum til að bæta upp fyrir tapaðar tekjur vegna veikinda, umönnunar fjölskyldu eða innilokunarráðstafana sem ekki er hægt að bæta fyrir öðruvísi. 

 

 

Undirritendur sameiginlegu yfirlýsingarinnar 

 

Animation in Europe – Animation in Europe sameinar 17 samtök framleiðanda hreyfimynda frá 15 löndum innan Evrópusambandsins sem standa fyrir þróun á hreyfimyndaiðnaðinum í Evrópu og að verja hagsmuni óháðra framleiðenda og dreifingaraðila þáttaraða og kvikmynda. 

CEPI – Samtök evrópskrar framleiðslu fyrir hljóð- og myndmiðla eru í dag einu evrópsku samtökin sem í eru 19 landssambönd óháðra kvikmynda- og sjónvarpsframleiðenda, sem eru fulltrúar um það bil 8.000 óháðra framleiðslufyrirtækja um gervalla Evrópu og framleiða fjölbreytt kvikmynda- og sjónvarpsefni. 

EUROCINEMA – EUROCINEMA eru samtök framleiðenda sem stofnuð voru í júlí 1991 að frumkvæði fagfélaga framleiðenda í Frakklandi.  

FIA – Alþjóðlegu leikarasamtökin eru fulltrúi stéttarfélaga listflytjenda, félaga og fagsambanda í um það bil 70 löndum. Í hinum tengda heimi efnis og afþreyingar, standa þau fyrir sanngjörn félagsleg, efnahagsleg og siðferðisleg réttindi listflytjenda sem starfa í öllum skráðum miðlum og lifandi leikhúsi. 

FIAPF – Meðlimir FIAPF eru 34 samtök framleiðenda frá 27 löndum. FIAPF eru einu samtök kvikmynda- og sjónvarpsframleiðenda sem ná yfir allan heiminn. FIAPF hefur einsett sér að gæta sameiginlegra efnahagslegra, lagalegra og reglugerðatengdra hagsmuna kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu í fimm heimsálfum. 

FERA – Samtök evrópskra kvikmyndaleikstjóra (FERA), sem stofnuð voru árið 1980, eru fulltrúi leikstjóra í kvikmynda- og sjónvarpsiðnaði á evrópskum vettvangi, þar sem 47 leikstjórasamtök frá 35 löndum eru meðlimir. Við tölum fyrir munn fleiri en 20.000 leikstjóra í kvikmyndum og sjónvarpi og erum fulltrúi þeirra hagsmuna hvað varðar menningu, sköpunargáfu og efnahag. 

FSE – Samtök handritshöfunda í Evrópu eru net lands- og svæðissamtaka, sambanda og félaga handritshöfunda í kvikmyndum og sjónvarpi í Evrópu, sem stofnað var í júní 2001. Þau samanstanda af 26 meðlimum frá 21 landi og eru fulltrúi meira en 7.500 handritshöfunda í Evrópu.  

UNI MEI – Innan miðla-, afþreyingar- og listageira UNI heimssamtakanna eru 170 landssamtök- og sambönd meira en 450.000 höfunda, tæknifólks og annars starfsfólks í miðlum, afþreyingu og listum um allan heim.