Verkefnabrestur og atvinnuleysi meðal sjálfstætt starfandi fólks í veirufaraldrinum varpar ljósi á veika og oft óljósa stöðu þessa stóra hóps á vinnumarkaði. Engin ein skilgreining nær yfir sjálfstætt starfandi og við blasir að sú hætta að margir slíkir verði útundan þegar stjórnvöld marka stefnu og ákveða ráðstafanir til stuðnings þeim sem standa nú skyndilega uppi tekjulausir. Þeir teljast hvorki vera fyrirtæki né launamenn heldur í ráðningarsambandi, oft lítt eða ekki skilgreindu, sem verktakar eða í afmörkuðum verkefnum hér og þar í einhvers konar lausamennsku.
Mikið er um einyrkja í tæknistörfum í miðlun, skapandi greinum og upplýsingatækni í röðum þess félags sem ég er í forsvari fyrir, Félagi tæknifólks í rafiðnaði. Enn stærri hópur stendur utan raða stéttarfélag og sá fer stækkandi. Ég vísa hér til fólks sem starfar að ýmsum verkþáttum kvikmyndagerðar, afþreyingariðnaðar, viðburðaþjónustu, framleiðslu sjónvarps- og margmiðlunarefnis og víðar.
Svo vill til að rétt áður en veirufárið brast á sótti ég ráðstefnu á Írlandi um sjálfstætt starfandi fólk. Þar kom fram að í Evrópusambandinu væri skjalfest að allir hefðu rétt til aðildar að stéttarfélagi, óháð ráðningarformi. Ennfremur að samkeppnisyfirvöld ESB litu á það sem meginhlutverk að verja rétt þeirri smáu gagnvart þeim stóru. Í því fælist til að mynda að umsvif eða réttindi sjálfstætt starfandi manna yrðu ekki heft eða takmörkuð gegnum kjarasamninga eða stéttarfélög. Með öðrum orðum, að óhefðbundið ráðningarform yrði ekki skör lægri en ráðning í launað starf í venjulegum skilningi.
Ég hjó um leið eftir því að viðurkenning á þessum skilningi er í reynd mislangt á veg komin í ESB-ríkjum. Hollendingar og Írar hafa stigið stærstu skrefin í nauðsynlegum breytingum á samkeppnisrétti og tengdri löggjöf. Þeir og fulltrúar stéttarfélaga í fleiri ríkjum kannast einfaldlega ekki við að það sé vandamál að þjóna sjálfstætt starfandi fólki og semja um kaup og kjör fyrir þess hönd.
Þarna sé ég verkefni fyrir verkalýðshreyfinguna okkar til að fást við og veirukreppan sýnir beinlínis fram á nauðsyn stéttarfélagsskjóls fyrir sjálfstætt starfandi, hvort heldur krísan sú verður skammvinn eða langvinn.
Byrjunin gæti verið að skilgreina hópinn sem um ræðir og í mínum huga mætti er einfaldlega átt við þá sem „starfa sjálfstætt með því að selja þekkingu sína, sérhæfða kunnáttu eða hugvit án formlegs, fastbundins ráðningarsambands.“
Fljótt á litið virðist auðvelt að hafa á hreinu hvað telst ráðningarsamband og hvað verktaka á vinnumarkaði. Á vef ríkisskattstjóra segir ef nánari könnun á vinnusamningi og framkvæmd hans leiði í ljós að í raun sé um að ræða vinnusamning, þótt hann sé kallaður verktakasamningur, sé um „gerviverktöku“ að ræða.
Gott og vel. Þarna kann nú að vera auðveldara um að tala en í að komast. Dæmi eru um fyrirtæki þar sem verktakar eru skuldbundnir til að vera til reiðu og ráðstöfunar á tilteknu tímabili. Fyrirtækið leggur til tæki og búnað, ákveður hvernig og hvenær er unnið og ætlast til þess að verktakarnir sjálfir skili verkinu en ekki undirverktakar.
Þarna setur verkkaupi með öðrum orðum skilyrði sem leiðir ráðningarsamband við verktaka í far vinnustaðasamnings frekar en verktöku. Slíkt getur átt sér stað í starfsemi sem nýtur stuðnings og fjárveitinga ríkisvaldsins. Undir hálfopinberum hatti eru þannig sett skilyrði sem nálgast mjög það sem ríkisskattstjóri kallar „gerviverktöku“ og verktökunum stendur ekki annað til boða að starfa við slík skilyrði eða hafna verkefninu!
Jakob Tryggvason, formaður Félags tæknifólks í rafiðnaði
Greinin birtist í Fréttablaðinu 1. maí 2020