Í tengslum við samruna félaganna FTR, FK, FSK fyrr í vetur hefur verið unnið að því hörðum höndum að setja upp markmið og skýran fókus á starfsemi nýja félagsins, Félags tæknifólks – FTF. Áskoranir vegna faraldursins voru talsverðar, sérstaklega þegar áætlanir um opna fundi með félögum tóku breytingum eftir því hvaðan vindar blésu hverju sinni. Í febrúar tókst okkur þó að halda opinn fund með félögum þar sem við ræddum fram og til baka undir fundarstjórn Nótera stefnumál okkar í framtíðinni. Út úr þeim fundi komu niðurstöður og mat fundargesta sem tóku virkan þátt í samtalinu. Áhersluatriði við stefnumörkun félagsins eru eftirfarandi í mikilvægisröð:

  1. Skýr grunnur að kjara og launaviðmiðum. Til þess að stefna FTF skili góðum árangri þarf að vinna og viðhalda góðum grunni um kjara og launaviðmið fólks sem starfar í skammtímaráðningarsambandi og í verktöku.
  2. Góð reiknivél sem tryggir að réttar greiðslur af sölureikningum fari á rétta staði. Til Þess að stefna FTF sé árangursrík, að mati þátttakenda, þá þarf að verða til reiknivél fyrir félagsfólk.
  3. Félagsleg réttindi einyrkja séu tryggð til jafns við launafólk. Til þess að stefna FTF skili árangri þarf hún að miða ákveðið að því að jafna réttindi félagsfólks í FTF í átt til þeirra réttinda sem launafólk býr við.
  4. Efla öryggisvitund milli verktaka / félagsmanna og verkkaupa. Auka öryggisvitund bæði meðal félagsfólks og þeirra sem ráða það í verkefni.
  5. Mikilvægur þáttur í stefnu FTF er að auka gæði og stöðlun í ráðningarsamningum og auka fagleika og gæði í ráðningarsamningum og aðgengi að sérfræðiaðstoð við gerð.
  6. Sniðmát að ráðningarsamningum komi frá stéttarfélaginu. Aukinn fagleiki og gæði í ráðningasamningum og sniðmát fyrir þá væru mikilvægt skref.

Með þessa punkta í farteskinu verður haldið áfram að byggja upp öflugt félag og þökkum við kærlega öllum þeim sem tóku þátt í þessu giggi fyrir að gefa sér tíma í verkefnið að móta stefnu félagsins okkar.