Undanfarna mánuði hafa staðið yfir framkvæmdir á Stórhöfða 29-31. Föstudaginn 4. febrúar s.l. var tekin í notkun sameiginleg móttaka fyrir öll aðildarfélög og aðildarsambönd sem eiga aðild að húsunum, sem fengið hefur heitið Hús fagfélaganna – 2F.
Á meðfylgjandi mynd má sjá formenn RSÍ, VM, Byggiðn, FIT, Samiðn og MATVÍS klippa á borða í tilefni dagsins.
Með þessu skrefi er stigið enn stærra skref til að auka samvinnu í iðnaðarsamfélaginu að Stórhöfða. 30. nóvember 2020 skrifuðu fagfélögin undir samning um rekstur sameiginlegrar þjónustuskrifstofu. Tilgangur samnings og samstarfsins er að efla þjónustu við félagsmenn, nýta betur sérþekkingu starfsfólks og ná fram hagræðingu í rekstri.
- Þjónustusvið annast símsvörun, afgreiðslu, bókhald, móttöku umsókna um styrki og útgreiðslu úr sjúkrasjóðum o.fl. Sjóðir félaganna eru sjálfstæðir og ekki stendur til að sameina þá.
- Kjarasvið veitir félagsmönnum upplýsingar um kjarasamningsbundinn rétt þeirra og aðstoðar félagsmenn ef upp koma kjaratengd vandamál á vinnustöðum. Sviðið býr til kynningarefni fyrir kjarasamninga og aðstoðar félögin við undirbúning kjaraviðræðna. Samningsumboðið er og verður áfram á forræði hvers félags fyrir sig.
- Húsrekstur Rekstur tölvukerfis, ræsting, starfsmannaaðstaða, mötuneyti og fundarsalir.
- Markaðsmál og samskipti Undir það falla samskipti við stjórnvöld en framkvæmdastjóri sem þó er ekki pólitískur fulltrúi félaganna eða talsmaður starfar m.a. að þessum málaflokki auk lögfræðings Húss fagfélaganna. Formenn fagfélaga eru ávallt talsmenn þeirra í fjölmiðlum og opinberum vettvangi.
Samstarfið hefur þegar borið árangur á þann veg að rödd félaganna út á við hefur styrkst inn í stjórnmálaumræðuna en einnig í fjölmiðlum. Sérhæfing starfsfólks hefur aukist þar sem verkaskipting hefur verið endurskoðuð við sameiningu.
Undirtektir félaga eru jákvæðar, það sýna þjónustukannanir frá nýliðnu ári.