13.12.1961 – 30.12.2022 

Blessaður, hvernig hefur þú það? Þessa kveðju fengum við, félagar hans í starfinu hjá Félagi tæknifólks og Rafiðnaðarsambandi Íslands iðulega að heyra. Haffa var alltaf umhugað um hvernig fólkið í kringum hann hefði það, alltaf til í að hlusta, ráðleggja og aðstoða. 

Haffi var hugsjónamaður með sterka réttlætiskennd. Þess fengu starfsfélagar hans á Stöð tvö að njóta í rúm 35 ár. Hann var trúnaðarmaður tæknifólks innan fyrirtækisins og naut mikillar virðingar bæði starfsfélaga og vinnuveitenda enda stóð það sem hann sagði. Haffi varð einnig fljótt virkur í starfinu innan Rafiðnaðarsambands Íslands og var einn af stofnfélögunum þegar Félags tæknifólks í rafiðnaði (FTR) var stofnað innan sambandsins árið 1993. Hann var fyrsti varaformaður félagsins og síðar formaður þess. Það var svo í stíl við eiginleika og persónu Haffa þegar hann vék frá sem formaður félagsins árið 2003 og bauð krafta sína aftur fram sem varaformaður. Félagið fékk að njóta þeirra krafta allt fram á síðasta dag. Varaformaður FTR til ársins 2020 þegar félagið sameinaðist Félagi sýningarstjóra í kvikmyndahúsum og kjaradeild Félags kvikmyndagerðarmanna og áfram sem varaformaður sameinaðs félags, Félags tæknifólks (FTF) þar til hann kvaddi okkur öll. Haffi á stóran þátt í þeim árangri sem hefur náðst við að byggja upp öflugt stéttarfélag fyrir allar tæknigreinar. Stofnfélagar FTR voru aðeins fáeinir tugir og allt síðan þá hefur jafnt og þétt fjölgað í okkar röðum. Það félag sem Haffi skilar nú af sér er annað stærsta aðildarfélag RSÍ sem telur í kringum sautjánhundruð félaga. 

Á fyrstu dögum Stöðvar tvö gekk Haffi í öll störf þar, sama hver þau voru. Það má segja að það sama hafi átt við í starfi hans fyrir Félagið og RSÍ. Fyrst kjörinn sem aðalmaður í miðstórn RSÍ árið 1999 eftir nokkur ár sem varamaður þar. Einn fulltrúa RSÍ í nefndastörfum ASÍ, stjórn Rafmenntar fræðsluseturs, formaður orlofsnefndar og svo margt fleira. Ekki má heldur gleyma félagsstarfinu. Margt félagsfólk RSÍ hefur líklega átt samskipti við Haffa í hliðinu við komuna á fjölskylduhátíðir RSÍ á orlofssvæði okkar við Apavatn, nú eða þegið af honum pylsu af grillinu eða önnur viðvik svo dæmi sé tekið. 

Haffi var einn af þessum fágætu mönnum sem með lagni og réttsýni beita sér þar sem þörf er á en vilja síður að athyglin sé á þeim sjálfum. Hann var hógvær og kankvís. Hann kvað sér ekki oft hljóðs en þegar hann tók til máls þá var ekki töluð vitleysan. Það var einhver vigt í orðum hans sem erfitt er að lýsa, á hann var hlustað þó hann hefði sig ekki mikið í frammi. Handtök Haffa fyrir hönd tæknifólks og innan RSÍ í yfir þrjá áratugi hafa verið mörg og það má sjá fingraför hans á nánast öllu sem hefur áunnist fyrir hönd tæknigreina á þeim tíma. Við í stjórn Félags tæknifólks kveðjum hér traustan og góðan félaga, varaformann okkar og persónulegan vin. Haffa verður sárt saknað og minningin lifir um góðan mann, elju hans og ósérhlífni. 

Takk fyrir allt og góða ferð kæri vinur. 

Stjórn Félags tæknifólks