LÖG FÉLAGSINS

1. KAFLI

Nafn félagsins, félagssvæði, hlutverk og félagsaðild.

1. gr.

Félagið heitir; Félag tæknifólks í rafiðnaði, skammstafað FTR. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík. Félagssvæði félagsins er allt landið.

2. gr.

Félagið er aðili að Rafiðnaðarsambandi Íslands, sem er aðili að Alþýðusambandi Íslands.

3. gr.

Hlutverk félagsins er:

a) Að efla og styrkja samhug og samheldni félagsmanna.
b) Að gera samninga um kaup og kjör fyrir hönd félagsmanna.
c) Að bæta og vernda réttindi og hagsmuni félagsmanna í atvinnu- og aðbúnaðarmálum.
d) Að veita félagsmönnum aðstoð í veikindum og atvinnuleysi.
e) Að vinna að fræðslu og menningarmálum í þágu félagsmanna.
f) Að hafa samstarf við önnur stéttarfélög um sameiginleg hagsmunamál.

4. gr.

Fullgildir félagsmenn geta þeir einir orðið, sem:

a) Eru í tækni- eða framleiðslustörfum á sviði raf- og tækniiðnaðar, upplýsingatækni, miðlunar og skapandi greina.
b) Starfa fyrir samtök rafiðnaðarmanna og hjá stofnunum þeim tengdum.
c) Eru ekki fullgildir félagsmenn í öðru aðildarfélagi innan ASÍ.
d) Standa ekki í óbættum sökum við félagið eða önnur stéttarfélög innan ASÍ sem viðkomandi hefur verið í.

Heimilt er að veita inngöngu í félagið þeim sem eru í starfsnámi í þeim greinum sem taldar eru upp í a) og b) liðum þessarar greinar, hvort sem þeir eru í námi á vinnumarkaði eða í skólum og eru á aldrinum 18 til 35 ára og eru þeir gjaldgengir í starfi ungliða á vettvangi félagsins. Einnig er heimilt samkvæmt þessari málsgrein að veita inngöngu í félagið þeim sem eru í starfsnámi og eru eldri en 35 ára. Leggja skal félagsaðild einstaklinga samkvæmt þessari málsgrein fyrir stjórn félagsins til samþykktar og skal stjórn félagsins í október og febrúar ár hvert fjalla um félagsaðild þeirra.

Aukafélagar geta þeir orðið, sem uppfylla skilyrði samkvæmt liðum a) til d), en eru félagsmenn í öðrum stéttarfélögum. Aukafélagar skulu hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins, en njóta ekki annara réttinda.

Menn sem að staðaldri hafa rafiðnaðarmenn í þjónustu sinni geta ekki verið félagsmenn.

5. gr.

Umsókn um inntöku í félagið skal vera skrifleg, gerð á eyðublöð sem félagið lætur í té. Í umsókn um inngöngu felst að umsækjandi skuldbindur sig til að hlýða lögum félagsins og samþykktum í öllum greinum.

Umsókn um inngöngu skal bera undir inntökunefnd til umsagnar.

Enginn telst fullgildur félagsmaður fyrr en inntökuumsókn hans hefur verið samþykkt af meirihluta stjórnar félagsins og er umsækjanda þá afhent félagsskírteini. Félagsmaður skal að jafnaði bera félagsskírteini á sér við vinnu.

Hafni stjórn félagsins umsókn um inntöku, hefur umsækjandi rétt til að vísa umsókn sinni til félagsfundar. Synji félagsfundur umsókn um inngöngu í félagið á umsækjandi rétt á að skjóta málinu til Rafiðnaðarsambands Íslands samkvæmt ákvæðum 9. gr. laga þess. Umsækjandi á rétt á að vísa úrskurði RSÍ til Alþýðusambands Íslands samkvæmt ákvæðum 10 gr. laga þess.

Hafi rafiðnaðarmaður, sem uppfyllir ákvæði 4. gr., greitt til sjóða félagsins í 6 mánuði eða lengur og hefur ekki sótt um skriflega samkvæmt 1. mgr., telst hann fullgildur félagi og skal stjórn félagsins þá afhenda honum félagsskírteini.

6. gr.

Úrsögn úr félaginu getur því aðeins átt sér stað:

a) Að félagsmaður hefji sjálfstæðan atvinnurekstur á hverju því starfssvið, sem heyrir til starfa félagsmanna RSÍ.
b) Að félagsmaður hætti störfum sbr. 4. gr. a) og b).
c) Að félagsmaður flytji búferlum af félagssvæðinu.

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og verður því aðeins tekin til greina að félagsmaður standi ekki í óbættum sökum við félagið.

Enginn getur sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst, eða ákvörðun um vinnustöðvun hefur verið tekin af félaginu eða trúnaðarmannaráði, þar til að vinnustöðvun hefur verið formlega aflýst. Einnig er óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmanna í öðru stéttarfélagi sem lagt hefur niður störf vegna löglegrar deilu um kaup og kjör.

2. KAFLI

Réttindi og skyldur félagsmanna, réttindamissir og brottrekstur.

7. gr.

Réttindi félagsmanna eru:

a) Málfrelsi, tillöguréttur og atkvæðisréttur á félagsfundum samkvæmt fundarsköpum félagsins.
b) Kjörgengi í trúnaðarstöður félagsins og á vegum þess í þeim samtökum, sem félagið á aðild að.
c) Réttur til styrkveitinga úr sjóðum félagsins, svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðum sjóðana.
d) Réttur til vinnu á þeim kjörum, sem samningar félagsins kveða á um.
e) Réttur til aðstoðar félagsins vegna vanefnda á samningum sem félagið hefur gert við atvinnurekendur.
f) Réttur til aðstoðar félagsins í atvinnuleit sé félagsmaður atvinnulaus.

8. gr.

Skyldur félagsmanna eru:

a) Að hlýða lögum félagsins, fundarsköpum, félagssamþykktum, fyrirskipunum og samningum í öllum greinum.
b) Að greiða gjöld sín til félagsins á réttum gjalddaga.
c) Að gegna trúnaðarstöðum fyrir félagið sbr. þó 33. gr. og 44. gr.
d) d) Að vinna ekki með einstaklingum, sem standa í óbættum sökum við félagið.
e) Að vinna ekki með erlendum ríkisborgurum nema að félagið hafi samþykkt atvinnuleyfi þeirra, að því tilskyldu að þeir njóti ekki lakari kjara en kveðið er á um í samningum félagsins við atvinnurekendur.

Félagsmaður sem hyggst hefja vinnu á nýjum vinnustað skal áður en ráðning fer fram afla sér nauðsynlegra upplýsinga um vinnustaðinn hjá skrifstofu félagsins.

9. gr.

Félagsmaður hefur fyrirgert rétti sínum í félaginu, ef hann:

a) Brýtur lög félagsins, samþykktir eða samninga.
b) Skuldar meira en tólf vikna gjöld til sjóða félagsins vegna eigin vanrækslu.
c) Veldur félaginu tjóni eða álitshnekki að mati stjórnar.

10. gr.

Ef sannað er að félagsmaður hefur brotið gegn ákvæðum 8. gr. a-liðar laga þessara, skal stjórn félagsins veita honum áminningu. Sé brotið ítrekað skal stjórnin leggja rökstudda tillögu um brottvikningu viðkomandi félagsmanns úr félaginu fyrir félagsfund.

11. gr.

Vanræki félagsmaður greiðslu tilskilina gjalda til sjóða félagsins sbr. ákvæði 9. gr. b-liðar, er stjórn félagsins heimilt að svipta hann félagsréttindum með viku fyrirvara þar til skuldin er að fullu greidd.

Hafi félagsmaður verið sviptur réttindum sínum vegna vanefnda á greiðslu félagsgjalda, en greiðir ekki skuld sína er trúnaðarmannaráði heimilt að víkja honum úr félaginu með 10 daga fyrirvara.

Félagsmaður á rétt til að skjóta úrskurði trúnaðarmannaráðs til félagsfundar, en skyldur er hann að hlýða úrskurðinum þar til honum er hrundið af félagsfundi.

12. gr.

Hafi félagsmaður unnið gegn hagsmunum félagsins, valdið því tjóni eða álitshnekki, getur stjórn lagt fyrir félagsfund tillögu um brottrekstur hans úr félaginu.

Úrskurði félagsfundar um áminningu eða brottvísun félagsmanns má vísa til Rafiðnaðarsambands Íslands samkvæmt ákvæðum 9. gr. laga þess. Félagsmaður á rétt á að vísa úrskurði RSÍ til Alþýðusambands Íslands samkvæmt ákvæðum 10. gr. laga þess.

Hafi félagsmanni verið vikið úr félaginu, á hann ekki afturkvæmt í félagið nema inntökubeiðni hans sé samþykkt á félagsfundi.

3. KAFLI

Aðal- og félagsfundir.

13. gr.

Aðalfund félagsins skal halda fyrir apríllok árlega. Stjórn félagsins leggur fram á aðalfundi skýrslu um störf sín, endurskoðaða reikninga sjóða félagsins og önnur mál eftir því sem þurfa þykir. Á aðalfundi skal kjósa í trúnaðarstöður sbr. 32. gr.

14. gr.

Aðalfund skal boða með sjö sólarhringa fyrirvara. Í fundarboði skal getið dagskrár fundarins. Birta skal fundarboð með auglýsingum í dagblöðum eða útvarpi og á vefnum.

15. gr.

Félagsfundir skulu haldnir þegar stjórn félagsins þykir þurfa, eða ef 15 félagsmenn krefjast þess skriflega, enda tilgreini þeir fundarefni.

16. gr.

Til félagsfunda skal boða með tveggja sólarhringa fyrirvara með útvarpsauglýsingum og/eða á vefnum. Ef vinnustöðvun eða aðrar gildar ástæður gera ókleift að boða félagsfund á framangreindan hátt, skal heimilt að boða fund með skemmri fyrivara.

17. gr.

Öllum fundum skal stjórnað samkvæmt fundarsköpum félagsins. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum allra mála, nema lög þessi kveði á um annað. Allir fundir eru lögmætir sé löglega til þeirra boðað og mættir eru formaður, ritari og gjaldkeri eða varamenn þeirra.

18. gr.

Heimilt er að hljóðrita aðal- og félagsfundi. Hópar félagsmanna, sem staðsettir eru utan fundastaðar geta tekið þátt í fundum með tengingu við hljóðkerfi í fundarsal um síma. Þar sem slíkir hópar félagsmanna eru saman komnir til þátttöku í fundum stjórnar trúnaðarmaður, sem formaður felur þann starfa.

4. KAFLI

Deildskipting félagsins, meðferð samninga og vinnuréttur.

19. gr.

Félagsfundur getur ákveðið að skipta félaginu í deildir, s.s. deild fyrir mismunandi kjarasamninga, deild fyrir félagsmenn á ákveðnum svæðum utan höfuðborgar-svæðisins o.s.frv., enda hafi þess verið getið í fundarboði að tillaga um slíkt lægi fyrir og stjórn félagsins og trúnaðarmannaráð mæli með slíkri deildarstofnun.

Verði ákveðin stofnun félagsdeildar, skal trúnaðarmannaráð setja starfsemi hennar reglur innan þess ramma, sem lög þessi heimila. Gerð kjarasamninga skal þó stjórn og trúnaðarmannaráð fara með í umboði deildar og í samráði við hana.

20. gr.

Félagið gerir samninga um kaup og kjör félagsmanna eða einstakra hópa félagsmanna, annaðhvort eitt sér eða í samráði við önnur stéttarfélög.

Samningar sem innihalda ákvæði, sem varða kjör allra eða meirihluta félagsmanna, eða geta haft stefnumarkandi áhrif á kjör þeirra að mati stjórnar og trúnaðarmannaráðs, skal leggja fyrir félagsfund eða allsherjaratkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar. Samningar sem fjalla um kjör einstakra smærri hópa í félaginu skal leggja fyrir viðkomandi hóp til afgreiðslu. Slíkan samning skal einnig leggja fyrir trúnaðarmannaráð til staðfestingar.

21. gr.

Á félagssvæði Félags tæknifólks í rafiðnaði gildir gagnkvæmur vinnuréttur fyrir félagsmenn í öðrum félögum rafiðnaðarmanna, í samræmi við ákvæði í 4. gr. laga RSÍ.

5. KAFLI

Stjórn, trúnaðarráð og aðrar trúnaðarstöður.

22. gr.

Stjórn félagsins skipa 5 menn, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi, auk þess 2 menn til vara. Í forföllum aðalmanna taka varastjórnarmenn sæti stjórnarmanna.

23. gr.

Stjórn félagsins ásamt 4 félagsmönnum skipa trúnaðarmannaráð félagsins. Varamenn í trúnaðarmannaráði eru 4. Í forföllum aðalmanna taka varamenn sæti þeirra. Formaður félagsins skal vera formaður trúnaðarmannaráðs og ritari félagsins ritari þess.

24. gr.

Þrír úr stjórn ásamt tveim félagsmönnum skipa inntökunefnd. Hlutverk inntökunefndar er að athuga hvort starfssvið umsækjanda fellur undir inntökuskilyrði 4. gr. og gefa stjórn félagsins umsögn þar um.

25. gr.

Formaður kallar saman stjórnarfundi og trúnaðarmannaráðsfundi með þeim hætti sem hann telur heppilegastan. Trúnaðarmannaráðsfundur er lögmætur ef meirihluti meðlima þess er mættur. Skylt er formanni að boða trúnaðarmannaráðsfund, ef þriðjungur trúnaðarmannaráðs óskar þess og tilgreinir fundarefni.

26. gr.

Formaður stjórnar fundum stjórnar og trúnaðarmannaráðs og hefur eftirlit með að meðstjórnendur hans, endurskoðendur og aðrir trúnaðarmenn félagsins ræki skyldur sínar. Varaformaður gegnir öllum störfum formanns í forföllum hans.

27. gr.

Ritari skráir í fundargerðabók greinilega frásögn um það sem gerist á stjórnar-, trúnaðarmannaráðs- og félagsfundum. Ritari undirritar fundargerðir funda ásamt formanni.

28. gr.

Gjaldkeri hefur á hendi eftirlit með sjóðum og fjárreiðum félagsins, innheimtu gjalda og færslu bókhalds eftir nánari fyrirmælum stjórnar.

29. gr.

Stjórn félagsins skal skipa trúnaðarmenn og öryggistrúnaðarmenn á vinnustöðum samkvæmt ákvæðum í landslögum og/eða samningum félagsins, að höfðu samráði við viðkomandi félagsmenn. Félagsfundur setur reglur um skipan og störf trúnaðarmanna.

30. gr.

Trúnaðarmannaráð hefur vald til að taka ákvörðun um hvenær hefja skuli vinnustöðvun og hvenær henni skuli aflétt. Þó skal félagsstjórn skylt að láta fara fram allsherjaratkvæðagreiðslu um hvort hefja skuli vinnustöðvun eða hvenær henni skuli aflétt ef 15 fullgildir félagsmenn krefjast þess skriflega.

Ákvörðun um að hefja vinnustöðvun eða aflétta henni er lögmæt og bindandi fyrir félagið og meðlimi þess, ef a.m.k. 3/4 hlutar greiddra atkvæða á lögmætum trúnaðarmannaráðsfundi hefur samþykkt hana, eða það hefur verið samþykkt í allsherjaratkvæðagreiðslu.

31. gr.

Stjórn og trúnaðarráð félagsins tilnefnir í samstarfi við önnur félög innan RSÍ, fulltrúa í framkvæmdastjórn ungliða og trúnaðarráð ungliða innan RSÍ.

32. gr.

Segi félagsmaður, sem trúnaðarstarfi gegnir fyrir félagið, sig úr því er honum skylt að skila af sér öllu er varðar trúnaðarstörf hans um leið og úrsögn er send.

6. KAFLI

Allsherjaratkvæðagreiðsla, kjör í stjórn, trúnaðrmannaráð og aðrar trúnaðarstöður.

33. gr.

Stjórn félagsins skal einum mánuði fyrir aðalfund ár hvert auglýsa frest til framboðs í trúnaðarstöður samkvæmt 22. gr.

Framboðsfrestur skal vera minnst 14 sólarhringar fyrir aðalfund og skal tillögum skilað til kjörstjórnar RSÍ innan þess tíma. Framboð verði send út með fundarboði aðalfundar eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund. Kjósa skal stjórn og trúnaðarmannaráð á aðalfundi. Kjósa skal formann fyrst , síðan fjóra stjórnarmenn, tvo varastjórnarmenn, fjóra trúnaðarráðsmenn, fjóra varatrúnaðarráðsmenn, tvo í inntökunefnd, tvo endurskoðendur og einn varaendurskoðanda. Aðalstjórn skiptir með sér verkum á fyrsta fundi eftir aðalfund.

34. gr.

Hafi félagsmaður gegnt trúnaðarstörfum fyrir félagið tvö kjörtímabil eða lengur, getur hann skorast undan kosningu næstu tvö ár.

35. gr.

Stjórn og trúnaðarmannaráð getur ákveðið að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu um kjör stjórnar, trúnaðarmannaráðs og annara trúnaðarmanna Stjórn og trúnaðarmannaráði er heimilt að efna til allsherjaratkvæðagreiðslu um samninga eða önnur málefni, eftir því sem þurfa þykir. Um tilhögun allsherjaratkvæðagreiðslu skal fara eftir reglugerð Alþýðusambands Íslands um allsherjaratkvæðagreiðslur.

7. KAFLI

Fjármál.

36. gr.

Sjóðir félagsins eru:

a)   Félagssjóður
b)   Menningarsjóður

Félagið á aðild að eftirtöldum sameiginlegum sjóðum rafiðnaðarmanna:

c) Styrktarsjóði rafiðnaðarmannna
d) Orlofsheimilasjóði rafiðnaðarmanna
e) Vinnudeilusjóði rafiðnaðarmanna

Félagið er aðili að Menntasjóði rafiðnaðarins, sem er sjálfstæður fjárhagsaðili.

37. gr.

Gjöld til félagssjóðs eru ákveðin á aðalfundi. Ákveða má gjöld til félagssjóðs á félagsfundi, enda hafi þess verið getið í fundarboði að ákvörðun þar um sé á dagskrá fundarins.

38. gr.

Gjalddagi gjalda til sjóða félagsins er hvern kaupgreiðsludag. Þó er heimilt að greiða gjöldin mánaðarlega, sé þess óskað, enda komi samþykki gjaldkera til. Gjöldum skal halda eftir af vinnulaunum félagsmanna hjá atvinnurekanda, enda sé kveðið á um það í kjarasamningum.

39. gr.

Hafi félagsmaður verið atvinnulaus eða veikur í einn mánuð eða lengur samfleytt, er stjórn félagsins heimilt að fella niður gjaldskyldu hans til sjóða félagsins tímabundið, enda komi atvinnulaus maður til skrásetningar á skrifstofu félagsins og sá sem veikur er leggi fram vottorð um veikindi sín.

40. gr.

Gjaldfrjálsir til sjóða félagsins skulu þeir félagsmenn vera, sem stunda nám hér á landi eða erlendis og eru launalausir þess vegna þann tíma sem á námi stendur. Þeir sem gjaldfrjálsir eru samkvæmt ákvæðum þessarar greinar skulu þó njóta fullra félagsréttinda.

41. gr.

Félagsmaður sem stundað hefur vinnu erlendis og ekki greitt gjöld til sjóða félagsins þann tíma, skal því aðeins fá full félagsréttindi á ný, að hann sýni vottorð um að hann hafi greitt stéttarfélagsgjöld í dvalarlöndum erlendis. Að öðrum kosti öðlast hann ekki félagsréttindi á ný, fyrr en hann hefur staðið skil á gjöldum til sjóða félagsins fyrir þann tíma sem hann var fjarverandi.

42. gr.

Kostnaður við rekstur félagsins skal greiðast úr félagssjóði. Stjórn félagsins er heimilt að greiða þeim félagsmönnum, sem stjórnin eða félagsfundur kveður til starfa fyrir félagið, kaup fyrir þann tíma, sem þeir fella niður fasta vinnu fyrir félagið.

43. gr.

Sjóði félagsins skal ávaxta á sem hagfelldastan hátt, í banka, ríkis- eða fasteignatryggðum skuldabréfum, eða hlutaeign í traustum eignahaldsfélögum í samstarfi við önnur stéttarfélög.

Gjaldkera er heimilt að taka sjóðina í sína vörslu, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Þarf til þess samþykki félagsstjórnar, enda beri hún sameiginlega ábyrgð á sjóðunum meðan þeir eru í vörslu gjaldkera.

Á annan hátt er óheimilt að ráðstafa sjóðum félagsins, nema með samþykki félagsfundar og þarf til þess 2/3 atkvæða. Tillögum um slíkt skal getið í fundarboði.

44. gr.

Reikningsár sjóða félagsins skal vera almannaksárið og skulu endurskoðaðir reikningar liggja fyrir til skoðunar fyrir félagsmenn 3 daga fyrir aðalfund.

8. KAFLI

Heiðursfélagar og gullmerki félagsins.

45. gr.

Heiðursfélagar geta þeir félagsmenn orðið, sem unnið hafa lengi fyrir félagið eða gegnt þýðingarmiklum trúnaðarstörfum fyrir stéttina. Trúnaðarmannaráð útnefnir heiðursfélaga, enda sé það gert með samhljóða atkvæðum. Einnig geta 15 félagsmenn gert tillögu um heiðursfélaga og skal hún lögð fyrir trúnaðarmannaráð til afgreiðslu. Heiðursfélagar skulu vera undanþegnir gjaldskyldu til félagssjóðs og kjörskyldu til trúnaðarstarfa, en eru háðir ákvæðum laga þessara að öðru leyti.

46. gr.

Þeir félagsmenn sem hafa verið í félaginu 25 ár skulu eiga rétt á að fá afhent gullmerki félagsins. Stjórn félagsins ákveður hvenær og á hvern hátt afhending gullmerkja fer fram.

9. KAFLI

Lagabreytingar.

47. gr.

Lögum þessum má aðeins breyta á lögmætum aðalfundi, hafi þess verið getið í fundarboði og þarf til þess 2/3 atkvæða viðstaddra félagsmanna.

48. gr.

Tillögur um lagabreytingar skal afhenda stjórn félagsins eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund. Skal stjórnin láta tillögurnar liggja frammi á skrifstofu félagsins, til skoðunar fyrir félagsmenn, 6 daga fyrir aðalfund.

10. KAFLI

Félagsslit.

49. gr.

Félaginu verður því aðeins slitið að tillaga um það hafi verið samþykkt í allsherjaratkvæðagreiðslu með 2/3 atkvæða. Um sameiningu félagsins við annað félag skal fara á sama hátt.

50. gr.

Verði félaginu slitið skulu allar eignir þess afhentar Rafiðnaðarsambandi Íslands til vörslu, þar til nýtt félag verður stofnað með sama tilgangi. Nú verður ekki stofnað nýtt félag innan 5 ára frá félagsslitum, skal þá stofna sjóð sem styrki rafiðnaðarmenn til framhaldsnáms og skulu allar eigur félagsins renna til sjóðsins. Reglugerð fyrir sjóðinn skal síðasta stjórn félagsins semja og afhenda RSÍ ásamt eigum félagsins.