Félag tæknifólks í rafiðnaði er félag sem stofnað var 6. apríl 1993 þegar þekking, reynsla og ekki síst sérnám erlendis fór að verða meira áberandi í starfsumsóknum um hin ýmsu störf t.d. í fjölmiðlaheiminum, leikhúsunum og víðar. Í réttindabaráttu jafnt og á faglega sviðinu hefur félagið haft sitthvað til málanna að leggja, en það var ekki fyrr en 1995 að það varð fullgilt stéttarfélag innan Rafiðnaðarsambands Íslands.
Stofnfélagar voru þeir starfsmenn Ríkisútvarpsins, Þjóðleikhússins og Íslenska útvarpsfélagsins sem ekki voru Iðnskólagengnir en störfuðu eins og Iðnskólagengnir starfsmenn þessara fyrirtækja. Stofnfélagar höfðu margir hverjir aflað sér sérfræðiþekkingar í faginu með ólíkum hætti og fannst réttilega, þeir ekki metnir inn til launa samkvæmt því.
Árið 1997 átti félagið fyrst fulltrúa í samninganefndum Rafiðnaðarsambandsins og hefur félagið síðan unnið jafnt og þétt að því að öll tæknistörf sem undir félagið heyra séu varin að kjarasamningi, uppbyggingu endurmenntunar fyrir félagsmenn og almennt beitt sér fyrir viðurkenningu á þeirri hæfni og þekkingu sem félagsmenn hafa aflað sér.
Félagið er aðila að almennum kjarasamningi Rafiðnaðarsambands Íslands við Samtök atvinnulífsins, auk fjölda sérkjarasamninga, vinnustaðasamninga og samninga við ríki og sveitarfélög.